Ýmis ráð koma til greina.

Greinar

Sjávarútvegurinn var að umtalsverðu leyti skilinn eftir, þegar ríkisstjórnin skar þjóðhagshætturnar niður um helming með bráðabirgðalögum og óskalista, sem samanlagt eiga að draga um helming úr uggvænlegri söfnun skulda við útlönd.

Vandi sjávarútvegsins skyggir á friðinn, sem í stórum dráttum ríkir á vinnumarkaðinum og almennt í þjóðfélaginu í kjölfar ráðstafana ríkisstjórnarinnar. Nú er stóra viðfangsefnið að koma sjávarútveginum í samt lag. Og það verður erfitt.

Til skamms tíma var talað um, að tap útgerðarinnar yrði um 300 milljónir króna á þessu ári. Nú tala forustumenn hennar um mun hærri tölu, jafnvel tvöfalt hærri. Á móti þessu kemur 100 milljón króna gengismunur að takmörkuðu gagni.

Nauðsynlegt er, að frekari ráðstafanir séu í senn bráðabirgðalausnir og langtímalausnir. Þær þurfa í senn að tryggja veiðiskap og lífsbjörg á næstu mánuðum og leggja um leið hornstein að skynsamlegri útgerð á næstu árum.

Útgerðarmenn segja, að halli litlu togaranna sé um 16%, stóru togaranna meiri og bátanna minni. Þessi tala er alténd af réttri stærðargráðu og felur í sér, að mikill hluti útgerðarfyrirtækja verði fyrr eða síðar gjaldþrota.

Afhyglisvert er, að tapið samsvarar nokkurn veginn því tjóni, sem talið er að útgerðin verði fyrir af völdum of stórs fiskiskipaflota. Það væri hægt að gera út, ef skipin væru töluvert færri. Að því þurfa lausnir að stefna.

Kominn er tími til, að allir, líka byggðastefnumenn, horfist í augu við, að sum útgerð hljóti að verða gjaldþrota. Á síðustu árum hafa verið keypt skip, sem alltaf var vitað, að gætu engan veginn staðið undir sér.

Grínistarnir, sem eiga þessi skip, hafa notfært sér fáránlega ljúfar fyrirgreiðslureglur hins opinbera og misjafnlega mikið dugleysi ýmissa sjávarútvegsráðherra við að berja í borðið, einkum þess, er nú situr í súpunni.

Hin sjálfvirka fyrirgreiðsla kerfisins og ístöðuleysi ráðherra varpa ekki ábyrgðinni af þeim, sem keyptu þessi skip, annað hvort í algeru óráði eða í þeim markvissa tilgangi, að gera þau út á ríkissjóð og skattborgarana.

Gallinn er, að samdráttur þjóðartekna veldur því, að ríkið og borgararnir geta ekki leyst vanda grínistanna. Þeir verða hreinlega að fá að verða gjaldþrota, svo að aðrir og hæfir útgerðarmenn geti varpað öndinni léttar við stórminnkað tap.

Með því að dreifa gengishagnaði hlutfallslega mikið til skipa með hlutfallslega mikinn fjármagnskostnað, var ríkisstjórnin að verðlauna grínistana. Ef nú verður farið út í að létta vöxtum og öðrum fjármagnskostnaði, er útkoman hin sama.

Skárra er að draga úr olíukostnaði fiskiskipa, þótt þar með sé óbeint verið að verðlauna þá, sem mest sóa olíunni. En hitt vegur þyngra á metunum, að ekki er sanngjarnt að láta útgerðina greiða niður olíu fyrir aðra.

Olía á kostnaðarverði leysir lítinn hluta vandans. Líklega verðum við að fara sömu leið og Norðmenn, ef hægt er að tryggja, að það verði aðeins til mjög skamms tíma. Ennfremur, að það verði ekki gert með sköttum, heldur ríkissparnaði.

Ríkissjóður getur greitt niður laun áhafna fiskiskipa. Þar með dreifist stuðningurinn á eðlilegan hátt, án verðlauna til skussa. Þar að auki er farið framhjá hlutaskiptavandanum. Þetta þarf að skoða, ef allt er í óefni. En hröð og markviss fækkun skipa er höfuðmálið.

Jónas Kristjánsson.

DV