Yndislega ókleift

Greinar

Yfirstétt Íslands hefur komizt að þeirri þægilegu niðurstöðu, að ekki sé hægt að koma í veg fyrir, að hún taki hækkuð laun í samræmi við úrskurð Kjaradóms. Einungis sé hægt að reyna að koma með nýjum lögum í veg fyrir, að slíkir atburðir endurtaki sig.

Þessu fagna yfirstéttarmenn með sjálfum sér um leið og þeir segjast harma niðurstöðuna. Úrskurður Kjaradóms verður látinn gilda, en næsta þing mun ef til vill setja skorður við, að stéttaskipting geti aukizt enn frekar fyrir atbeina yfirstéttarmanna í Kjaradómi.

Yfirstéttin hefur sterk rök fyrir málstað sínum. Hún getur ekki sett bráðabirgðalög, af því að ekki má lengur fara eins frjálslega með það vopn og áður tíðkaðist. Og hún getur ekki tekið nýfengið kaup af mönnum, af því að þeir geta kært slíkt til mannréttindadómstóls.

Þingmenn stjórnarflokkanna eru um þessar mundir að sannfæra sjálfa sig á fundum sínum um, að almenningur sé æstur út af máli þessu af því að hann skilji ekki eðli þess. Smám saman muni menn átta sig á, að úrskurður Kjaradóms hafi verið efnislega réttur.

Þetta er stöðluð útskýring á andstöðu fólks við ýmis mál, svo sem Evrópusamfélagið og Evrópska efnahagssvæðið. Ef fólk er andvígt slíkum fyrirbærum, er það túlkað sem vanþekking. Hið sama er nú að gerast í svörun yfirstéttarinnar við andúð almennings á dóminum.

Yfirstéttin er smám saman að losna úr sambandi við þjóðina og kjör hennar. Forseti Alþingis sagðist í viðtali við DV ekki hafa efni á að afþakka tvöföldun launa sinna. Yfirstéttin reiknar þarfir sínar með öðrum og stærri mælikvarða en almenningur neyðist til að gera.

Yfirstéttin telur sig þurfa að nota alla þá peninga, sem hún nær höndum yfir, þótt almenningur verði að sæta áföllum út af versnandi þjóðarhag. Yfirstéttin veit, að fólk getur svo sem ekkert gert í þessu, nema að bölsótast í skamman tíma, meðan málið er að fjara út.

Yfirstéttin var búin að bæta hag sinn vel, áður en Kjaradómur bætti um betur. Hún bætti kjör sín á fjórum árum, 1986-1990, úr 5,5-földum almenningslaunum í 7,2-föld almenningslaun. Hún þarf ekki lengur að deila kjörum með þjóðinni og er á hraðferð upp í peningaskýin.

Ef peningagjáin milli yfirstéttar og almennings hefði ekki breikkað svona á þessum fjórum árum, gæti lægri tekjuhelmingur þjóðarinnar haft 18% hærri tekjur í dag en hann hefur í raun. Á erfiðum tíma hafa tekjur verið fluttar frá hinum lægra settu til hinna hærra settu.

Ráðherrar hafa forustu í gegndarlausri græðgi, sem lýsir sér í ferðahvetjandi dagpeninga- og greiðslukerfi í utanferðum þeirra; í fjölbreyttri misnotkun ríkisfjár í flokksþágu og einkaþágu; og í sérstakri skattameðferð hlunninda framhjá lögum og reglum, sem gilda um aðra.

Brenglað siðferði síast út frá toppnum til yfirstéttarinnar í heild, svo sem til fyrirmanna í ráðuneytum, alþingismanna, bankastjóra, stjórnarmanna í opinberum sjóðum og gjaldþrotsfyrirtækjum, ráðgjafa af ýmsu tagi og sérfræðinga í stofnunum á borð við Kjaradóm.

Jafnframt tekur yfirstéttin ekki á sig neina ábyrgð af gegndarlausri brennslu verðmæta í sjóðum og bönkum, sem þeir stjórna; í stórfyrirtækjum, sem þeir reka á kostnað hins opinbera; og í heilum atvinnuvegum, sem að þeirra frumkvæði eru kostaðir af almannafé.

Stundarvanda út af nýföllnum kjaradómi mun yfirstéttin leysa á hefðbundinn hátt með því að fresta honum, unz þjóðin hefur snúið sér að öðrum áhugaefnum.

Jónas Kristjánsson

DV